Að breyta um mataræði

Það verður auðveldara að vera vegan á Íslandi með hverjum deginum. Vöruúrvalið er alltaf að aukast, sem dæmi er nú hægt að kaupa dýraafurðalausa mjólk, osta og tilbúna rétti í flestum matvörubúðum. En hér hef ég tekið saman nokkur ráð til að auðvelda ykkur að breyta um mataræði.

Finndu góðan stuðning
Facebook hóparnir Íslenskar grænmetisætur og Vegan Ísland eru mjög virkir. Þar er hægt að finna félagskap, svör og aðstoð nánast samdægurs. Nú þegar erum við orðin yfir fimm þúsund manns. Hópurinn heldur reglulega hlaðborð eða Pálínuboð þar sem allir mæta með vegan rétt og við skiptumst á uppskriftum og ráðum. Vertu endilega með okkur í góðum félagskap.

Taktu þér tíma
Sumir þeirra sem eru vanir grænmetisfæði, eða hafa mjög sterka sannfæringu hafa skipt um mataræði á einum degi. En sennilega hentar flestum að taka sér góðan tíma. Það tekur einfaldlega tíma að breyta um rótgrónar venjur. Galdurinn er að læra að útbúa einfaldan, fljótlegan mat sem er svo góður að þú vilt helst ekki snúa til baka. Og umfram allt að vera þolinmóður við sjálfan sig.

Inn með það góða
Snjallt hugarfar er að einbeita sér að því góða sem við bætum inní mataræðið. Bættu inn góðum mat af krafti og með tímanum verður minna pláss fyrir það sem gerir þér ekki gott. Að einblína á bannlista er ekki vonlegt til árangurs.

Út með það slæma
Hvað með að velja aðeins eitt dýr og taka það af matseðlinum? Hitt kemur síðar. Til dæmis sleppa kjúklingnum eða svínakjötinu og bíða aðeins með restina. Hver og einn velur það sem þeim hentar og tekur þetta á sínum hraða. Ef við erum að borða hollan og góðan mat alla daga finnum við að lokum lítið fyrir þessu.

Mundu að bragðskynið breytist
Þetta gæti hljómað eins og undarleg vísindi, en bragðskynið breytist þegar við breytum um mataræði. Það sem okkur fannst einu sinni gott verður það ekki endilega eftir ár eða svo. Því meira sem þú borðar af nýja fæðinu því meira kanntu að meta það. Þeir sem hafa skipt úr nýmjólk yfir í léttmólk þekkja þetta. Fyrst er vatnsbragð að léttmjólkinni en með tímanum finnum við lítinn mun og nýmjólkin fer að taka á sig rjómabragð. Breyttir bragðlaukar kæra fólk.

Morgunáskorun
Gott ráð er að breyta einni máltíð í einu og byrja til dæmis á morgunmatnum. Fyrsta skrefið gæti verið að kaupa plöntumjólk í stað kúamjólkur útí kaffið og á morgunkornið eða finna sér gott vegan álegg á brauð. Annað skrefið getur verið að læra að útbúa góða hafragrauta og smoothies. Þriðja að prufa að bæta inn einum ávexti á morgnana, eða að smakka það handhæga ávaxtamauk sem er í boði.

Lærðu að elda
Á netinu er mikið af góðum ráðleggingum varðandi grænmetisfæði og flestir mæla með því að læra að elda. Úrvalið af tilbúnum grænmetisréttum er að aukast en þeir eru ekki allir hollir. Ef þú vilt bera sjálfur ábyrgð á þínu mataræði og heilsu er nauðsynlegt að læra að elda. Vegan matur getur verið ítalskur, mexíkanskur, indverskur, tælenskur, japanskur eða hvaða af hvaða matarhefð sem er. Ég lofa að þú munt ekki sjá eftir því að skoða þennan heim betur heldur munu bragðlaukarnir dansa. Hér eru uppáhalds matreiðslubækurnar mínar. Hér eru nokkrar íslenskar uppskriftasíður og hér uppáhalds erlendu uppskriftasíðurnar.

Millimál
Snarl og millimál getur verið brauð, hrökkbrauð, ávextir og ber. Súpur, grænmeti með hummus, hnetur, ávaxtamauk , smoothies og poppkorn. Mér finnst hæfilegt að borða 1-3 ávexti á dag og þeir henta mjög vel sem millimál eða eftirréttur.

Kvöldmatur
Kvöldmatur getur verið burrito, lasagna, pastaréttur, hamborgari, vegan pylsur, pottréttir, salöt, súpur og fleira. Flestar uppskriftir eru vegan vænar. Sumum reynist vel að halda áfram að elda uppáhalds uppskriftirnar sínar en finna leiðir til að elda þær án dýraafurða. Síðan er mikilvægt að bæta þessu góða inní mataaræðið þar til það slæma hefur minna vægi og á endanum hverfur. Grænmetisfæði er stundum ólíkt þessu hefðbundna fæði sem við þekkjum hvað varðar skipulag. Kvöldmatur þarf ekki endilega að vera þrískiptur (prótein, kolvetni og salat). Hann má í rauninni vera hvað sem er. Baunir, ávextir, ber, grænmeti, korn, hnetur og fræ. Það sem skiptir máli er að mataræðið sé fjölbreytt í heild sinni. Ágætt er að setja sér raunhæf markmið eins og að elda nýja uppskrift einu sinni í viku, eða tvisvar í viku. Og áður en þú veist af ertu kominn með nýtt uppskriftasafn og nýjar venjur.

Baunaáskorun
Baunir eru mikilvægur próteingjafi og koma fyrir í mörgum grænmetisuppskriftum. Svo við mælum með hetjulegri baunaáskorun. Baunir fást í dósum í flestum matvöruverslunum, sem dæmi nýrnabaunir, kjúklingabaunir, svartbaunir, cannelini baunir og linsubaunir. Baunir má nota í hamborgara, pottrétti, burritos, súpur, hummus og salöt. Baunir úr dós duga vel en ef þig langar í meiri gæði má nota þurrkaðar lífrænar baunir sem þurfa að liggja í bleyti yfir nótt.

Kjötsöknuður
Tófu og Seitan eru einnig góðir próteingjafar og sniðugir fyrir þá sem sakna kjöts. Allar helstu matvöruverslanir og heilsubúðir selja vegan kjötvörur svo þig þarf ekki að skorta skinku, pepperoni eða pylsur á þessu nýja mataræði. Úrvalið er alltaf að aukast.

Kornáskorun
Korn getur verið stór þáttur í grænmetisfæði fæði líka. Dæmi um korn eru hafrar, heil hrísgrón, bulghur, kúskús, kjúklingabaunamjöl, bygg, quinoa og maís. Svo keyptu endilega pakka af korni sem þú hefur ekki prófað áður og fylgdu leiðbeiningunum.

Að fara í matarboð
Ágætt ráð er að mæta ekki mjög svangur í veislur og einbeita sér meira af samræðunum heldur en matnum. Samkomur eru til þess að kynnast fólki og njóta félagskapar, ekki til að borða yfir sig og sytja útí horni. Sumir grænkerar borða kjöt og fisk í matarboðum og það er auðvitað í fínu lagi. Hver og einn gerir þetta upp við sig. Gott ráð er að hringja á undan sér og spyrja útí matseðilinn. Þá er hægt að bjóðast til að koma með góðan grænmetisrétt sem allir geta smakkað á. Einnig er hægt að grípa með sér tilbúna máltíð úr matvörubúð eða veitingahúsi og fá að hita upp á staðnum. Enginn ætti að þurfa að borða kjöt og dýrafurðir fyrir aðra.

Að fara á veitingahús
Flest veitingahús bjóða uppá vegan valkosti eins og salöt og kartöflur. Ef ekki er oftast hægt að panta rétti af matseðlinum en biðja þjóninn að sleppa dýraafurðunum. Svo má líka kynna sér matseðilinn fyrirfram eða hringja á undan sér og biðja um sérfæði. Flestar veisluþjónustur eru snillingar í grænmetisfæði, en það er auðvitað misjafnt. Þar sem eru pizzur í boði má biðja um ostalausa pizzu með hvítlauksolíu. Sumir hafa vanið sig á að mæta með plöntuost og biðja þjóninn að nota það á pizzuna. Ef pizzan er útbúin á staðnum ætti það ekki að vera vandamál. Munið svo að allar fyrirspurnir og beiðnir ganga betur með brosi og góðu skapi.

Grænmetisveitingahús
Eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til að breyta mataræðinu er að fara reglulega á grænmetisveitingahúsin. Flest þeirra bjóða uppá hálfan skammt svo að það þarf ekki að vera dýrt að prufa hitt og þetta. Þetta er gullið tækifæri til að komast að því hvað þér líkar og hvað þig langar að prufa að elda heima. Þá er sniðugt að leggja nafnið á réttinum á minnið, eða helstu innihaldsefnin og leita að svipaðri uppskrift á netinu. Oftast eru þetta hefðbundnir indverskir eða asískir réttir, sem eru ekki eins flóknir og þeir líta út fyrir að vera.

Daðraðu við heilsubúðirnar
Þar fæst allt sem þig vantar í grænmetisuppskriftirnar og meira til. Einnig vegan sælgæti, vegan snyrtivörur og fleira sem auðvelt er að týna sér í. Líttu inn og skoðaðu þig um. Bæði Hagkaup og Góð heilsa á Njálsgötu 1 í Reykjavík selur gervikjöt og vegan pizzur svo þig þarf ekki að skorta skinku, pepperoni eða pylsur á þessu nýja mataræði. Úrvalið er alltaf að aukast.

Eldhúslistir æfina á enda
Að gerbylta eldhúsinu og læra nýjar eldunaraðferðir tekur tíma svo mikilvægt er að vera góður við sjálfan sig og fyrirgefa öll litlu mistökin. Þau eru einmitt það besta í ferlinu. Hver lítill lærdómur eða mistök færir okkur skrefi nær betri heilsu. Bæði fyrir okkur og fjölskylduna. Nú er ég búin að sætta mig við það að lærdómurinn mun taka mig alla æfina. Þegar maður eldar nýja uppskrift er fullkomnlega eðlilegt að sóða út allt eldhúsið og taka sér langan tíma. En smám saman kemst hver uppskrift í vana og maður finnur nýjar leiðir til að elda eins og dansari.

Dóra Matthíasdóttir – http://www.vegandora.com

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s