Ajo blanco er hefðbundin uppskrift frá suður Spáni. Súpan er borin fram köld með vínberjum og eplum. Algert sælgæti. Við höfum borið hana fram bæði sem forrétt og aðalrétt.
200-300 grömm afhýddar möndlur
Eitt snittubrauð (sem hefur þornað á borði tvær nætur)
Tvö hvítlaukshöfuð (afhýðið hvítlauksgeirana)
130 ml ólífuolía
Hvítvínsedik eftir smekk c.a. 8-9 matskeiðar
Salt eftir smekk
- Leggið möndlurnar í bleyti í 1 klst.
- Leggið brauðið í bleyti í annarri skál í 1 klst.
- Setjið allan hvítlaukinn, hluta af möndlunum og 2-3 msk af hvítvínsediki í blandara og blandið.
- Bætið við brauðinu (ekki vatninu) og restinni af möndlunum smám saman í blandarann og blandið vel.
- Bætið við ólífuolíu og blandð aftur.
- Ef súpan er of þykk fyrir ykkar smekk má bæta við vatni, en súpan á að vera heldur þykk.
- Bætið við hvítvínsediki og salti eftir smekk.
Geymið í ísskáp um hálfa til eina klukkustund til að bragðið njóti sín sem best.
Hrærið í súpunni áður en hún er sett á diska og berið fram með niðurskornum vínberjum og eplasneiðum.
Auglýsingar